Viðskipti innlent

Icesave ekki hluti af skuldauppgjöri

Höskuldur Kári Schram skrifar
Icesave reikningar Landsbankans eru ekki hluti af skuldauppgjöri Björgólfs Thors Björgólfssonar þrátt fyrir að félag í hans eigu hafi átt tæplega helming hlutabréfa í bankanum og fengið marga milljarða í arð. Talsmaður Björgólfs segir að hann beri enga ábyrgð á Icesave.

Björgólfsfeðgar ásamt Magnúsi Þorsteinssyni keyptu tæplega 46 prósent hlut ríkisins í Landsbankanum þegar bankinn var einkavæddur í árslok 2002.

Björgólfsfeðgar áttu að meðaltali um 45 prósent hlut í bankanum frá einkavæðingu fram að hruni haustið 2008. Á þessu tímabili fengu þeir fjóra og hálfan milljarð króna í arðgreiðslur fyrir sinn eignarhlut.

Í gær tilkynnti Björgólfur Thor Björgólfsson um að hann hafi komist að samkomulagi við sína lánardrottna um heildaruppgjör allra skulda án afskrifta - eins og segir í tilkynningunni.

Inni í þessu uppgjöri er þó ekki Icesave reikningur Landsbankann sem óbreyttu mun kosta þjóðarbúið mörg hundruð milljarða króna. Talsmaður Björgólfs segir að hann beri ekki ábyrgð á Icesave.

„Icesave reikningurinn er ekki skuld Björgólfs Thors. Hann var fjárfestir í Landsbankanum. Hann kom aldrei að stjórn bankans og mátti ekki skipta sér að rekstri hans enda var hann ekki þar í stjórn svo Icesave var ekki á hans ábyrgð frekar en annarra þeirra þúsunda hluthafa sem áttu hlut í Landsbankanum við fall hans," segir Ragnhildur. Hún segir að Björgólfur hafi borið sína ábyrgð því að hann hafi misst allan hlut sinn í fyrirtækinu þegar að bankinn féll.

Ragnhildur segir að stjórnvöld beri ábyrgðina á þessu Icesave klúðri. Hún telji að það þurfi að fara að semja um málið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×