Viðskipti innlent

Telur kaupin í Færeyjabanka vera veðkall eða uppgjör

Í Markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa er líkum að því leitt að kaup Hildu hf. (Saga Capital) á 7,72% hlut í Færeyjabanka s.l. föstudag hafi verið veðkall eða uppgjör.

Í Markaðsfréttunum segir að flöggun fylgdi í kjölfar viðskiptanna með bréf í Færeyjabanka þar sem 7,72% eignarhlutur skipti um hendur og kemur fram að Hilda hf. (Saga Capital) er að eignast þennan hlut. Hvað liggur að baki þessum viðskiptum hefur ekki komið fram en ólíklegt er að um stöðutöku sé að ræða og líklegra að einhvers konar uppgjör eða veðkall eigi sér stað.

Þá segir að óvenjulega mikil velta á íslenska hlutabréfamarkaðinum í síðustu viku skýrist af þessum viðskiptum með bréf í Færeyjabanka. Heildarveltan í vikunni var 2,9 milljarðar kr. og þar af voru fyrrgreind viðskipti 2,6 milljarðar kr. Viðskipti með bréf i Marel voru fyrir 159 milljónir kr. og í Össuri fyrir 124 milljónir kr.

„Eftir þennan fyrsta mánuð ársins er vert að huga að hver ávöxtun íslenskra hlutabréfa hefur verið. Vísitalan hefur hækkað um 1,12% sem skýrist af 4,21% hækkun Össurar og 3,09% hækkun Færeyjabanka. Þrjú félög, Marel, Atlantic Petroleum og Atlantic Airways eru á núllinu en Bakkavör hefur lækkað um 34,15%," segir í Markaðsfréttum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×