Viðskipti innlent

Íslandsbanki ríður á vaðið - Fer að tilmælum FME og SÍ

Íslandsbanki hyggst fara eftir tilmælum FME og Seðlabankans varðandi vexti sem skal miða við þegar gengislánin eru reiknuð út. Bankinn ríður því á vaðið en enginn annar banki hefur gefið út hvað hann hyggist gera í málinu. Tilmælin eru afar umdeild og vildu bæði talsmaður neytenda og Hagsmunasamtök heimilanna meina að tilmælin væru í raun hvatning til lögbrota og vitnuðu sér til stuðnings í samningslögin.

Fyrstu greiðsluseðlar frá Íslandsbanka munu berast neytendum 1. september næstkomandi.

Í tilkynningu frá Íslandsbanka segir svo orðrétt:

Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands gáfu í gær út tilmæli um hvernig fjármálafyrirtæki skuli vaxtareikna lán sem innhalda óskuldbindandi gengistryggingarákvæði þar til mál skýrast endanlega fyrir dómstólum.

Þegar Hæstiréttur kvað upp úrskurð í málum er vörðuðu gengistryggð bílalán þann 16. júní sl. lýsti Íslandsbanki því yfir að bankinn myndi hlíta niðurstöðu dómanna og aðgerða stjórnvalda ef til þeirra kæmi. Ljóst er að bílalán og kaupleigusamningar hjá Íslandsbanka Fjármögnun falla undir tilmæli FME og Seðlabanka og því mun í framhaldinu verða reiknuð út ný staða slíkra lána og samninga sem gildir þar til Hæstiréttur hefur skorið nánar úr um hvaða vextir skuli gilda á samningunum.

Íslandsbanki Fjármögnun hefur þegar ákveðið að fresta útsendingu greiðsluseðla vegna bílalána og kaupleigusamninga í erlendum myntum fyrir júlímánuð og hefur ákveðið að sama gildi með gjalddaga fyrir ágústmánuð. Hinsvegar verður ný staða reiknuð á slíkum lánum og mun afborgun þann 1. september næstkomandi miðast við þá stöðu. Þá hefur tímabundið verið hætt öllum innheimtuaðgerðum vegna gengistryggðra kaupleigusamninga og bílalána til einstaklinga. Enda þótt ekki séu sendir út greiðsluseðlar geta viðskiptamenn greitt inn á lán sín og verður að sjálfsögðu tekið tillit til slíkra innborgana við endurútreikning lánanna.

Fjölmörgum spurningum er ósvarað um álitamál sem rísa vegna eigendaskipta, uppgreiðslu og annarra þátta er snerta lán sem hafa að geyma óskuldbindandi gengistryggingarákvæði. Leitast verður við að leysa úr þeim málum með eins skjótum og skýrum hætti og kostur er.

Innan Íslandsbanka er nú verið að fara yfir öll lán í erlendum gjaldmiðlum í því skyni að leggja mat á hvort þau hafi að geyma óskuldbindandi gengistryggingarákvæði. Leiði sú yfirferð í ljós að aðrar tegundir lána en kaupleigusamningar og bílalán til einstaklinga bankans falli undir tilmæli FME og Seðlabanka og/eða aðra niðurstöðu dómstóla verður að sjálfsögðu tekið tillit til greiðslna afborgana og vaxta inn á slík lán við endurútreikning og uppgjör, ef til kemur, og tryggt að viðskiptavinir njóti betri réttar.

Íslandsbanki vill þakka viðskiptavinum sínum fyrir sýnda þolinmæði undanfarna daga. Jafnframt þykir bankanum miður sú óvissa sem ríkt hefur og þau óþægindi sem málið í heild sinni hefur haft fyrir viðskiptavini.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×