Viðskipti innlent

Tollstjóri getur krafist gjaldþrotaskipta

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Tollstjóri, fyrir hönd skattrannsóknarstjóra, getur krafist þess að fyrrverandi forsvarsmenn FL Group verði teknir til gjaldþrotaskipta. Enginn þeirra á eignir upp í kyrrsetningarkröfu skattrannsóknarstjóra vegna meintrar refsiverðar háttsemi þeirra á lögum um virðisaukaskatt.

Skattrannsóknarstjóri fór nýlega fram á að eignir Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Hannesar Smárasonar, Jóns Sigurðssonar og Skarphéðins Berg Steinarssonar yrðu kyrrsettar. Þeir voru allir í forsvari fyrir FL Group á árunum 2006 og 2007 og eru grunaðir um refsiverða háttsemi í tengslum við brot félagsins á lögum um virðisaukaskatt. Samtals nam kyrrsetningarkrafan nokkur hundruð milljónum króna. Eignir fjórmenninganna hrökkva ekki upp í kröfuna. Um 93 milljónir vantar upp á hjá Jóni Ásgeiri og tæplega 140 milljónir króna hjá Hannesi. Skattrannsóknarstjóri frestaði gerðunum að öðru leyti til þess að freista þess að hitta þá félaga fyrir.

Hjá Jóni Sigurðssyni, forstjóra Stoða, áður FL Group, voru eignir kyrrsettar fyrir um 71 milljón króna. Hann lagði til að um þrjátíu milljóna króna krafa hans í þrotabú Landsbankans í Lúxemborg yrði kyrrsett. Því var hafnað. Eignir Jóns duga ekki til tryggingar kröfunnar. Kyrrsetningarbeiðninni var því lokið án árangurs. Jón hyggst leita til héraðsdóms til að fá gerðinni hnekkt.

Skattrannsóknarstjóri krafðist þess að kyrrsettar yrðu eignir hjá Skarphéðni Berg að fjárhæð 90 milljónum króna. Hann átti eignir fyrir 31 milljón króna. Gerðin var því lýst árangurslaus að hluta.

Árangurslaus kyrrsetning hefur í flestu tilliti sömu áhrif og árangurslaust fjárnám. Við það fær gerðabeiðandi, sem er tollstjóri fyrir hönd skattrannsóknarstjóra, heimild til að óska eftir gjaldþrotaskiptum. Ekki náðist í Stefán Skjaldarson, skattrannsóknarstjóra, í dag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×