Viðskipti innlent

Yfir 50% útlána Byggðastofnunnar eru gengistryggð lán

Nú eru 53% lántakenda Byggðastofnunar með erlend lán eða 268 af 509 lántakendum. Gengistryggð útlán Byggðastofnunar stóðu í 9,9 milljörðum kr. 30. júní 2008 en voru komin í 16,1 milljarð kr. í árslok 2008. Að mati Byggðastofnunar var staðan svipuð í árslok 2009.

Þetta kemur fram í svari Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar Framsóknarflokki um gengistryggð lán hjá Byggðastofnun.



Gunnar Bragi spurði ennfremur um hvort til stendur að gera Byggðastofnun kleift að bregðast við hækkun gengistryggðra lána með svipuðum hætti og aðrar fjármálastofnanir hafa boðað?

Í svari ráðherra segir að eftir útlánatöp og afskriftir útlána í kjölfar efnahagshrunsins var eiginfjárhlutfall Byggðastofnunar komið niður fyrir lögbundið lágmark. Eiginfjárhlutfall skal að lágmarki vera jákvætt um 8% en samkvæmt árshlutauppgjöri í lok júní 2009 var það neikvætt um 4,74%.

Að beiðni Byggðastofnunar vann Ríkisendurskoðun úttekt og greiningu á efnahagsreikningi og eignasafni stofnunarinnar. Ríkisendurskoðun taldi að lokinni þeirri greiningu ekki ástæðu til að gera athugasemdir við það mat sem fram kom í árshlutauppgjörinu. Í framhaldinu ákvað Alþingi að auka eigið fé Byggðastofnunar um 2,6 milljarða kr. með fjáraukalögum 2009. Jafnframt samþykkti Alþingi allt að 1,0 milljarðs kr. framlag til að bæta eigið fé stofnunarinnar á fjárlögum 2010.

Hluti þessarar heimildar verður nýttur með þeim hætti að ríkissjóður kaupir af Byggðastofnun stofnfé sem stofnunin kann að eignast í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar sparisjóða, en upphæðin verður að öðru leyti nýtt sem eiginfjárframlag í formi skuldabréfa. Miðað er við að þessi aðgerð skili eiginfjárhlutfalli á bilinu 9-10% í árslok 2010. Ráðstöfun þessi mun gera Byggðastofnun kleift að starfa með eðlilegum hætti, en ekki hefur verið gert ráð fyrir niðurfærslu á höfuðstóli gengistryggra lána samhliða þessu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×