Viðskipti innlent

Guðmundur segir nýtt mat S&P ekki koma á óvart

Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, segir nýtt lánshæfismat Standard & Poors (S&P) ekki koma á óvart.

"Við höfðum af því fréttir að nýtt lánshæfismat væri í athugun og í ljósi eiginfjárstöðunnar, hún sé undir þeim viðmiðunarmörkum sem reglugerð gerir ráð fyrir," segir Guðmundur. "Þarna er matsfyrirtækið að bregðast við því. Við höfum brugðist við nú þegar, tvívegis hækkað vaxtaálag sjóðsins, auk þess er ráðherra með í gangi vinnu starfshóps sem er að fara yfir þetta og meta aðstæður."

Sjóðurinn gæti lenti í lausafjárskorti í ár og á næsta ári, að mati S&P. Matsfyrirtækið telur hinsvegar að sjóðurinn gæti brugðist við þessum vanda með því að taka meiri lán.

Guðmundur segir það fyrst og fremst stjórnvalda að bregðast við. Hann óttast hins vegar ekki lausafjárskort. Guðmundur segir að fall bankakerfisins sé helsta ástæða erfiðleika sjóðsins. Við fall Spron og Straums fjárfestingabanka, ofan á fall stóru bankanna, hafi eigið fé farið niður fyrir þau mörk sem kveður á um í reglugerð.

"Við erum undir því marki sem sett hefur verið, en það er reglugerðarákvæði sem stjórnvöld hafa í hendi sér, og geta endurskoðað," segir Guðmundur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×