Viðskipti innlent

FME gerði ekki ráð fyrir ríkisábyrgð á Icesave

Fjármálaeftirlitið gerði ekki ráð fyrir að ríkisábyrgð væri á Icesave innistæðum í Bretlandi og Hollandi þegar útibú Landsbankans þar voru stofnuð. Eftirlitið bendir á að hvergi í lögum um innistæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta sé talað um ríkisábyrgð.

Innlend fjármálafyrirtæki sem ætla að starfrækja útibú í öðru ríki á evrópska efnahagssvæðinu eiga að tilkynna það Fjármálaeftirlitinu fyrirfram, samkvæmt lögum.

Þremur mánuðum eftir að sú tilkynning berst skal Fjármálaeftirlitið senda lögbærum yfirvöldum viðkomandi landa ýmsar upplýsingar um bankann sem hyggst hasla sér völl þar. Þar á meðal upplýsingar um bótakerfi sem verndar viðskiptavini bankans.

Fréttastofa leitaði upplýsinga um hvernig þessum málum var háttað þegar Landsbankinn stofnaði útibú sín í Bretlandi og Hollandi, þar sem Icesave reikningarnir voru.

Í svari Fjármálaeftirlitsins við fyrirspurn fréttastofu segir að eftirlitið hafi ávallt sent upplýsingar um aðild viðkomandi fjármálafyrirtækis að Tryggingarsjóði innistæðueigenda og fjárfesta. Fjármálaeftirlitið vísaði einnig til þess í bréfum sínum að tryggingasjóðurinn væri byggður á viðeigandi reglum ESB er varða bótakerfi fyrir fjárfesta.

Fjármálaeftirlitið bendir jafnframt á að hvergi í lögum um innistæðutryggingar sé talað um ríkisábyrgð á lánum sem tryggingasjóðurinn hefur heimildir til að taka.

Samkvæmt þessu er ljóst að Fjármálaeftirlitið gerði ekki ráð fyrir að útibú Landsbankans í Bretlandi og Hollandi nyti ríkisábyrgðar ef illa færi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×