Viðskipti innlent

Orkusamningur Norðuráls við HS orku í uppnámi vegna hrunsins

Valur Grettisson skrifar
Orkusamningurinn gildi ekki að öllu leytinu til í dag. Meðal annars kemur til greina að endursemja um orkuverð.
Orkusamningurinn gildi ekki að öllu leytinu til í dag. Meðal annars kemur til greina að endursemja um orkuverð.

Orkusamningur á milli HS orku og Norðuráls, sem var undirritaður í apríl 2007, er í endurskoðun samkvæmt upplýsingum frá Júlíusi Jónssyni, forstjóra HS orku.

Samningurinn er ein af grunnforsendum fyrir framkvæmdum álversins í Helguvík en samningurinn kveður á um 150 MW raforku fyrir fyrsta áfanga álversins. Restin af orkunni, um 250 MW, átti að koma frá Orkuveitu Reykjavíkur.

Samningurinn er enn í gildi en það hefur orðið forsendubrestur meðal annars vegna hrunsins sem hefur gert það að verkum að ekki hefur allt gengið eftir varðandi ákvæði samningsins. Því er samningurinn í uppnámi og það þarf að semja upp á nýtt.

Þegar Júlíus er spurður hvort það sé meðal annars verið að endursemja um orkuverð til Norðuráls svarar hann því til að það sé eitt af atriðunum sem sé til skoðunar.

Forstjóri Magma Energy, Ross Beaty, sem keypti á dögunum hlut Geysis Green Energy í HS orku, sagði í fjölmiðlum að það væri vel mögulegt að hækka raforkuverð til fyrirtækja.

Þegar haft var samband við framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar og samskipta Norðuráls, Ágúst Hafberg, fengust eingöngu þær upplýsingar að samningurinn væri í gildi. Hann vildi ekki tjá sig frekar um málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×