Innlent

Kona með botnlangabólgu sótt um borð í norskan togara

Björgunarmiðstöðin í Stavanger óskaði kl. 12:46 eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar við að sækja 26 ára konu sem talin er vera með botnlangabólgu um borð í norska togarann Langvin sem staddur er að úthafskarfaveiðum á Reykjaneshrygg eða 207 sjómílur frá Reykjanesi.

Eftir samráð við þyrlulækni Landhelgisgæslunnar var ákveðið að sækja konuna, var togarinn búinn að hífa veiðarfæri og hélt á fullri ferð með stefnu á Reykjanes.

Þar sem ekki er mögulegt fyrir þyrlu Landhelgisgæslunnar að fara lengra en 150 sjómílur frá ströndu var farið í loftið kl. 17:45. Komið var að togaranum rétt fyrir kl. 20 þegar hann var staddur 145 sml SV af Reykjanesi.

Var konan hífð á börum um borð í þyrluna. Þyrlan lenti svo með konuna um tíu leytið í kvöld á Landspítalanum í Fossvogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×