Lífið

Simon Cowell græðir á tá og fingri

Eigur Idol-dómarans Simons Cowell nema um 32 milljörðum króna og ætti hann því að eiga fyrir salti í grautinn á næstunni.
Eigur Idol-dómarans Simons Cowell nema um 32 milljörðum króna og ætti hann því að eiga fyrir salti í grautinn á næstunni.

Sjónvarpsmaðurinn og tónlistarframleiðandinn Simon Cowell hefur aukið auðæfi sín um 45 milljónir punda á undanförnu ári. Nema þau nú 165 milljónum punda, eða um 32 milljörðum króna. Þetta kemur fram á árlegum lista dagblaðsins The Sunday Times yfir ríkasta fólkið í breska tónlistarbransanum.

Cowell er þekktastur sem hinn eitilharði dómari í hæfileikaþáttunum The X-Factor og American Idol. Helming auðæfa sinna hefur hann grætt fyrir sjónvarps­vinnu sína á undanförnum tveimur árum. Annar dómari í X-Factor, Cheryl Cole, jók einnig auðæfi sín mikið á síðasta ári, eða um tíu milljónir punda.

Í efsta sæti á listanum lenti Edgar Bronf­man, formaður útgáfufyrirtækisins Warner Music, sem er jafnframt í 25. sæti yfir ríkustu menn Bretlands. Eigur hans eru metnar á 1,6 milljarða punda, eða rúma 300 milljarða íslenskra króna.

Athygli vekur að Ronnie Wood, gítarleikari Rolling Stone, dettur út af topp fimmtíu listanum. Auðæfi hans nema nú 20 milljónum punda en námu áður 35 milljónum. Ástæðan fyrir því er rándýr skilnaður hans við eiginkonu sína til 24 ára, Jo, á síðasta ári eftir að upp komst um framhjáhald hans.

Bítlarnir fyrrverandi, Paul McCartney og Ringo Starr, komust aftur á móti á lista 50 efstu manna. Auðæfi McCartneys nema 475 milljónum punda en Ringo er aðeins neðar með 140 milljónir í vasanum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.