Viðskipti innlent

Lýsing sendir ekki út greiðsluseðla fyrir júlí

Lýsing ásamt öðrum fjármálafyrirtækjum vinnur að því að leiðrétta höfuðstól bílasamninga í samræmi við nýfallinn dóm Hæstaréttar. Lýsing mun ekki senda út greiðsluseðla með gjalddaga í júlí vegna bílasamninga í erlendri mynt fyrr en það liggur fyrir hvernig útreikningum skal háttað.

Þetta kemur fram á vefsíðu Lýsingar. Þar segir að áhrif dómsins eru um margt óljós og getum við ekki á þessari stundu svarað því hvaða afleiðingar það hefur að greiða eða greiða ekki þegar útgefna greiðsluseðla.

Reynt verður eftir fremsta megni að fá niðurstöðu í þessi mál eins fljótt og auðið er, en beðið er eftir svari frá stjórnvöldum um hvort um verði að ræða frekari aðgerðir af þeirra hálfu.

Innheimtuaðgerðum verður frestað um sinn og á það einnig við um riftanir og vörslusviptingar. Í þeim tilfellum þar sem riftunaruppgjör hefur þegar átt sér stað ríkir alger óvissa á þessari stundu.



Við munum kappkosta að upplýsa viðskiptavini okkar um gang mála á vef félagsins, að því er segir á vefsíðunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×