Viðskipti innlent

Bókhald Byrs til rannsóknar

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Búið er að ráða fjármálarannsóknarteymi frá PricwaterhouseCoopers til að rannsaka bókhald Byrs, en teymið mun gera úttektir á athöfnum og gjörningum fyrrum stjórnenda og stjórnarmanna í Byr sparisjóði.

Rannsóknin sem fjármálarannsóknarteymið frá PricewaterhouseCoopers mun ráðast í á starfsemi Byrs fyrir bankahrunið verður af svipuðum meiði og rannsókn Kroll á Glitni banka fyrir hrun, en Viðskiptablaðið greinir frá þessu í dag.

Rannsókn Kroll hefur sem kunnugt er þegar skilað því að að slitastjórn Glitnis hefur höfðað á annan tug skaðabótamála, en þeirra stærst er málshöfðun gegn Jóni Ásgeir Jóhannessyni og fleirum í New York.

Vinna Kroll var þó ekki gallalaus, því látið var í veðri vaka í eiðsvarinni yfirlýsingu formanns slitastjórnar Glitnis fyrir breskum dómstólum að innstæður sem tilheyrðu í raun Iceland Foods væru vísbending um að miklum fjármunum hefði verið skotið undan. Sú ályktun var dregin af vinnu Kroll, en reyndist fullkomlega haldlaus.

Á grundvelli vinnu Kroll höfðaði þrotabú Glitnis síðan mál gegn PricewaterhouseCoopers, sama fyrirtæki og ætlar nú að rannsaka Byr, fyrir að greiða fyrir og taka þátt í að dylja þau „sviksamlegu viðskipti" eins og slitastjórn Glitnis orðar það, sem að endingu leiddu til falls Glitnis í október 2008.

Eins og fréttastofa Stöðvar 2 greindi frá á laugardag eru tvær leiðir taldar heppilegar fyrir framtíð Byrs hf., hlutafélagsins sem stofnað var á rústum Byrs sparisjóðs. Annars vegar verður hlutafélagið selt í einu lagi innanlands, en bæði Landsbankinn og Íslandsbanki hafa sýnt áhuga, eða fyrirtækið verður afhent kröfuhöfum Byrs sparisjóðs, gamla Byrs. Þeirra stærstir eru þýskir bankar eins og Bayerische Landesbank og HSH Nordbank og austurríski bankinn RZB.

Stofnefnahagsreikningur Byrs hf. hefur ekki verið birtur, en Viðskiptablaðið greinir frá því í dag að hann verði 160 milljarðar króna og þar af verða útlán 126 milljarða króna virði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×