Innlent

Stjórnsýslufræðingur: Það á ekki að bjarga fjármálafyrirtækjunum

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir.
Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir.
„Mér sýnist ef að stjórnvöld ætla að grípa hér inn í og taka ákveðið högg af lögbrjót, sem eru fjármálafyrirtækin, þá eru þau á mjög hættulegri braut," segir Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnsýslufræðingur.

Mikil óvissa ríkir um útreikning á gengistryggðum lánum eftir dóm Hæstaréttar í síðustu viku. Fjármálafyrirtæki kalla eftir leiðbeiningum frá stjórnvöldum um hvernig taka skal á dómi Hæstaréttar og stjórnvöld hafa beðið eftir viðbrögðum banka og eignaleigufyrirtækja. Ýmsir, þar á meðal þingmaðurinn Þór Saari, telja að áhyggjur stjórnvalda snúist fyrst og fremst um framtíð fjármálafyrirtækjanna.

Sigurbjörg sagði í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag að dómurinn segi mikið um íslenska lagasetningu. Hún hafi hingað til ekki fengið háa einkunn því undirbúningur lagasetningar hér á landi sé almennt óvandaður.

Sigurbjörg telur að stjórnvöld eigi ekki að bjarga fjármálafyrirtækjunum. „Vegna þess að þá er verið að taka ábyrgðina af fjármálafyrirtækjunum og þegar það er einu sinni gert þá er verið að gefa vísbendingu að það megi halda áfram að teygja sig í allar áttir í trausti þess að þau komist upp með það og einhver annar taki skellinn."

Hún benti á að fyrir bankahrunið hafi stjórnvöld ekki treyst sér til að grípa inn í og beita afli til fá bankanna til að minnka efnahagreikninga sína. Bönkunum hafi þannig verið hlíft og þess í stað hafi almenningur tekið skellinn þegar bankarnir hrundu. „Þá spyr maður sig, á hvaða forsendum ætti ríkið að grípa inn í núna til að bjarga fjármálafyrirtækjunum sem orðið hafa uppvís að því að brjóta lög."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×