Innlent

Stjórnvöld verða að stíga á sviðið

Framkvæmdastjóri SFF segir lítt hafa þokast í umræðum um gengistryggðu lánin.
Framkvæmdastjóri SFF segir lítt hafa þokast í umræðum um gengistryggðu lánin. Mynd/Haraldur Jónasson

Fjármálafyrirtækin hafa að undanförnu velt upp ýmsum möguleikum um hvernig leysa eigi úr málum þeirra sem eru með myntlán. Engin ákvörðun hefur þó verið tekin.

Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, segir málin hafa þokast lítið þótt fjármálafyrirtækin hafi skoðað sameiginlegar leiðir til að brúa bilið á meðan beðið sé frekari niðurstöðu dómstóla. „Ýmsum möguleikum hefur verið velt upp en engin ákvörðun verið tekin," segir hann og leggur áherslu á að stjórnvöld verði að stíga inn á sviðið.

Eftir því sem næst verður komist hafa stjórnvöld og fjármálafyrirtækin skoðað nokkra möguleika. Þeirra sístur mun vera tímabundin lagasetning. Önnur felst í að færa afborganir gengistryggðra lána aftur til þess tíma sem þau voru tekin án þess að hreyfa við stökkbreyttum höfuðstól lánanna.

Svipaðar aðgerðir standa þegar til boða hjá nokkrum fjármálafyrirtækjum þar sem ákveðin upphæð, fimm til sex þúsund krónur, leggjast ofan á afborgun hverrar milljónar gengistryggðs láns.

Talið er ólíklegt að nokkuð verði gert um helgina en ekki útilokað að stjórnvöld hreyfi við málinu í nýrri viku. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×