Viðskipti innlent

Færði gjalddaga um nokkur ár

Jón Helgi Guðmundsson
Jón Helgi Guðmundsson
Straumborg, fjárfestingafélag Jóns Helga Guðmundssonar og fjölskyldu, tapaði sjö milljörðum króna í fyrra, samkvæmt nýbirtum ársreikningi. Tap félagsins síðastliðin tvö ár nemur 14,7 milljörðum króna.

Jón Helgi og fjölskylda á Norvik-samstæðuna, móðurfélag Nóatúns, Krónunnar, Elko, Byko og fleiri verslana. Straumborg heldur utan um erlendar eignir tengdar Norvik, svo sem í Lettlandi og Rússlandi. Straumborg á jafnframt tæpan fjórðungshlut í Norvik á Íslandi.

Fyrir bankahrunið í október 2008 var hlutafjáreign Straumborgar í Kaupþingi metin á rúma 22 milljarða króna. Hlutafjáreignin var verðlaus í lok ársins.

Eignir Straum­borgar í fyrra námu 36,9 milljörðum króna samanborið við 42,3 milljarða árið á undan. Eigið fé nam rúmum 5,4 milljörðum króna miðað við tæpa 12,5 milljarða árið 2008. Eiginfjárhlutfall í lok síðasta árs var 14,5 prósent miðað við rúm 29 prósent í hittifyrra.

Á móti eignum skuldar Straumborg tæpa 31,5 milljarða króna. Þar af eru tæp sextíu prósent í krónum. Lungi afborgana var á gjalddaga í fyrra.

Straumborg gat ekki staðið skil á þeim og samdi við lánardrottna í apríl á þessu ári um lengingu á lánum til 2013. Það ár verður Straumborg að reiða fram 31 milljarð króna, miðað við endurnýjaða samninga. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×