Viðskipti innlent

Bankar íhuga lögsókn vegna sendiráðskaupa

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Arion banki, Glitnir og Íslandsbanki íhuga að lögsækja fyrrum eigendur stórhýsis á Skúlagötu sem Kínverska sendiráðið festi nýlega kaup á. Bankarnir telja að þeir hafi orðið af um þrjú hundruð milljónum króna við söluna.

Kínverska sendiráðið festi kaup á stórhýsi á Skúlagötu 51 í desember og hyggst flytja starfsemi sína þangað. Um er að ræða rúmlega 4.100 fermetra nýbyggingu beint neðan við lögreglustöðina á Hverfisgötu. Kaupverðið var 870 milljónir króna en áhvílandi á húsinu eru lán frá bönkunum þremur sem nema hærri upphæð en kaupverðið.

Upprunalega var húsið í eigu eignarhaldsfélagsins Vindasúlna sem er í eigu feðganna Arons og Karls Steingrímssonar sem jafnan er kenndur við Pelsinn. Stuttu áður en feðgarnir gengu að tilboði sendiráðsins kom annað tilboð í húsið. Bankarnir gerðu móttilboð sem þeir aðilar féllust á. Tilboð þetta nam rúmum 570 milljónum króna en ekkert varð úr kaupunum.

Þann 16. desember var húseignin flutt yfir í annað félag sem ber nafnið 2007 ehf og síðan seld kínverska sendiráðinu. Við þetta eru bankarnir ósáttir og telja að með þessum gjörningi hafi feðgarnir haft af þeim allt að 300 milljónir króna.

Aron Karlsson segir ástæðuna fyrir flutningi húseignarinnar yfir í annað félag hafi verið að á gamla félaginu hafi hvílt ógreiddar virðisaukaskattsskuldir sem nýir eigendur hafi ekki geta tekið yfir. Hann hafnar því að hafa hagnast um 300 milljónir á viðskiptunum og tekur fram að ekki sé búið að afskrifa neitt. Það eigi þó eftir að koma í ljós hvernig vinnst úr þeim eignum sem eru í Vindasúlum.

Þá íhugi þeir feðgar að leita réttar síns þar sem þeir telja að bankaleynd hafi verið brotin þegar upplýsingar um félagið birtust í DV í síðustu viku.

Ekki náðist í Brynjar Níelsson, lögmann bankanna í málinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×