Viðskipti innlent

Vísitala byggingarkostnaðar hækkaði um 1,1% milli mánaða

Vísitala byggingarkostnaðar reiknuð miðað við nýjan grunn um miðjan janúar 2010 er 101,1 stig sem er hækkun um 1,1% frá fyrri mánuði. Þar af hafði hækkun virðisaukaskatts úr 24,5% í 25,5% 0,6% áhrif á vísitöluna.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að vísitalan gildir í febrúar 2010. Vísitalan miðað við eldri grunn (júní 1987=100) er 506,6 stig í febrúar 2010. Á síðustu tólf mánuðum hefur vísitala byggingarkostnaðar hækkað um 3,4%.

Vísitala byggingarkostnaðar er nú birt á nýjum grunni miðað við nýtt vísitöluhús. Ítarlega verður fjallað um grunnskiptin og nýja vísitöluhúsið í Hagtíðindaheftinu „Vísitala byggingarkostnaðar á nýjum grunni" sem Hagstofan mun gefa út 8. febrúar næstkomandi.

Breytingar hafa verið gerðar á framsetningu undirvísitalna við grunnskiptin. Nú eru birtar undirvísitölur niður á byggingarstig, samkvæmt staðli ÍST 51 frá 2001, sem koma í stað undirvísitalna samkvæmt eldri áfangaskiptingu.

Birtar eru vísitölur fyrir aðföng sem skiptast í íslenskt byggingarefni, innflutt byggingarefni, vinnu og einnig vélar, flutning og orkunotkun. Þá hefur skilgreining á undirvísitölum faggreina verið endurskoðuð og vogir fyrir hverja undirvísitölu verða birtar mánaðarlega.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×