Viðskipti innlent

Stærsta túnfiskeldi heims í íslenskri eigu

Eldiskvíar Túnfiskeldi Kali Tuna í Króatíu er líka í eigu Umami Sustainable Seafood.
Eldiskvíar Túnfiskeldi Kali Tuna í Króatíu er líka í eigu Umami Sustainable Seafood.

Viðskipti Umami Sustainable Seafood hefur lokið kaupum á túnfiskeldisfyrirtækinu Baja Aqua Farms í Mexíkó. Umami er að stærstum hluta í íslenskri eigu, en fyrirtækið er dótturfélag Atlantis Group.

Óli Valur Steindórsson, starfandi stjórnarformaður Umami og forstjóri Atlantis, segir kostnað félagsins við kaupin nema 30 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur tæpum 3,5 milljörðum króna. Hann segir fyrirtækið, sem nú rekur túnfiskeldi bæði í Króatíu og Mexíkó, það langstærsta í heimi á sínu sviði, með um fimmtungsmarkaðshlutdeild. „Ætli félagið sé ekki fjórum til fimm sinnum stærra en næsta félag í geiranum," segir Óli Valur.

Núna segir Óli Valur að áherslan verði lögð á innri vöxt, en á markaðnum séu miklir möguleikar. Túnfiskveiðar hafi verið hart gagnrýndar af umhverfisverndarsamtökum og í þeim séu sóknarfæri. „Þetta er vara sem selur sig sjálf og eftirspurnin miklu meiri en framboðið."

Óli Valur segir að aðstandendur félagsins hafi hitt á réttan tímapunkt í að skrá félagið á smærri verðbréfamarkað í Bandaríkjunum til að safna fé í kaupin. Félagið sé hins vegar enn að stærstum hluta í íslenskri eigu, beint eða óbeint. Kjarnahópurinn sem staðið hafi að stofnun þess telji um 20 manns, en hluthöfum hafi nú fjölgað í 180. Óli segir stefnt að því að fjölga hluthöfum í 400 og skrá félagið í kjölfarið á Nasdaq-hlutabréfamarkaðinn. - óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×