Viðskipti innlent

SSB ræddi þjófnað á arði við Íslandsbankastjóra

Í síðustu viku átti stjórn Samtaka stofnfjáreigenda í Byr (SSB) tveggja tíma fund með Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, og tveimur lögfræðingum bankans. Meðal annars var rætt um meintan þjófnað Glitnis af arði stofnfjárbréfa í Byr sem keypt voru í janúar 2008.

„Þetta var mjög athyglisverður fundur þar sem skipst var á skoðunum," segir á vefsíðu SSB.

Á vefsíðunni kemur fram að tilurð fundarins var á þann veg, að Birna var ósátt við þá staðhæfingu Sveins Margeirssonar að hún hefði verið verkefnastjóri yfir lánaverkefninu til stofnfjáraðila Byrs. Hún hafði því samband við Svein og í þeim samræðum ákváðu þau að halda ofangreindan fund.

Fundargerð fundarins mun verða sett inn á vefsíðunaþegar hún er tilbúin.

Í annarri færslu á vefsíðu SSB vill Guðjón Jónsson vekja athygli þeirra stofnfjáraðila, sem keyptu stofnfjárbréf í BYR í aukaútboðinu, sem fór fram í janúar 2008, á því að Glitnir stal arðinum af þessum bréfum.

„Þessi bréf voru ekki fjármögnuð af Glitni, og ekki veðsett af Glitni, og þar afleiðandi átti Glitnir engan rétt á því að fá arðinn af þeim greiddan. Engu að síður hirti bankinn arðinn af þessum bréfum án þess að tala við kóng eða prest. Þetta kallast þjófnaður á góðri íslensku," segir Guðjón.

„Ég hef rætt þetta við Björn Sveinsson, útibússtjóra Íslandsbanka, og lögfræðing sem hann hafði sér til fulltingis. Þeir viðurkenndu, að Glitnir hefði ekki átt rétt á þessum peningum, en töldu að Íslandsbanki gæti ekki greitt þá til baka.

Á fundi með sem stjórn SSB átti með Birnu bankastjóra Íslandsbanka var þetta mál kynnt, og hvöttu þau til að þetta yrði kært.

Næsta skref er því að kæra formlega fyrir þennan þjófnað. Þetta er að vísu ekki stór upphæð, en þetta sýnir best hvernig Glitnir meðhöndlaði okkur auma stofnfjáreigendur með algjörri fyrirlitningu."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×