Viðskipti innlent

Um 39% heimila skulda meira en þau eiga

Áður en bankahrunið skall á um haustið 2008 var þó nokkur hluti heimila þegar komin í viðkvæma stöðu, þ.e. var á mörkum þess að geta staðið undir greiðslubyrði lána og framfærslu
Áður en bankahrunið skall á um haustið 2008 var þó nokkur hluti heimila þegar komin í viðkvæma stöðu, þ.e. var á mörkum þess að geta staðið undir greiðslubyrði lána og framfærslu
Hlutfall heimila sem skuldar meira en það á í húsnæði hefur aukist gríðarlega frá ársbyrjun 2008. Þannig var þetta hlutfall 11% í janúar 2008 og var komið upp í 20% um það leyti sem bankahrunið átti sér stað og um þessar mundir er það líklega komið upp í 39%.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem greint er frá málstofu Seðlabankans um skuldastöðu heimilanna sem haldin var í gærdag. Í greiningu Seðlabankans kemur fram að frystingar og greiðslujöfnun hafi hækkað þetta hlutfall og að þetta hlutfall jókst örast hjá heimilum með gengistryggð íbúðalán.

Áður en bankahrunið skall á um haustið 2008 var þó nokkur hluti heimila þegar komin í viðkvæma stöðu, þ.e. var á mörkum þess að geta staðið undir greiðslubyrði lána og framfærslu, í kjölfar mikillar skuldsetningar í uppsveiflunni. Þannig voru ríflega 11% heimila sem náðu ekki endum saman í ársbyrjun 2008 en ef tekið er mið af þeim sem náðu ekki endum sama eða voru á mörkum þess að geta staðið undir greiðslubyrði lána og framfærslu var hlutfallið 20%. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Seðlabankans á stöðu heimilanna sem kynnt var í gær.

Eins og gefur auga leið þá jókst þetta hlutfall enn frekar á árinu 2008 og ef ekki hefði komið til frystingu lána er líklegt að allt að 28% heimila hefði glímt við verulega greiðsluerfiðleika strax í kjölfar bankahruns. Þetta hlutfall hefði þá einnig haldist hátt.

Þannig leiddi samanburður Seðlabankans á stöðu heimila í febrúar síðastliðnum með og án aðgerða í ljós að þær aðgerðir sem ráðist var í hafi lækkað hlutfall heimila sem er á mörkum þess að geta staðið undir greiðslubyrði og framfærslu. Í kjölfar aðgerða eru um 22% heimila á mörkum þess en ef ekki hefði komið til aðgerða er líklegt að þetta hlutfall hefði verið 27%.

Vísbending er um að tæplega 24 þúsund heimili þurfi líklega á frekari aðgerðum að halda og virðist samband vera á milli tekna og þeirra heimila sem eru í vanda. Þannig er um 80% heimila í tekjulægsta hópnum í vanda en einungis um 2% heimila sem er í tekjuhæstu og er ljóst að hlutfall heimila í vanda minnkar ört eftir því sem ráðstöfunartekjur heimila aukast. Jafnframt virðist hlutfall heimila í vanda fara lækkandi með aldri lántakenda.

Þannig er 47% í aldurshópnum 18-24 ára í vanda en um 13% þeirra sem eru 70 ára og eldri. Ljóst er að barnafólk á frekar undir högg að sækja en án barna. Þannig er um 35% einstæðra foreldra í vanda og 27% hjóna með börn en hjá einhleypingum er þetta hlutfall 25% og 14% hjá hjónum án barna. Ekki kemur á óvart að hlutfall þeirra heimila sem eru í vanda er mun hærra hjá þeim heimilum sem eru með gengistryggð íbúða- eða bílalán en hjá þeim sem eru með lán í krónum, eða um 36% á móti 16%, en um 56% af heimilum í vanda eru með gengistryggð lán íbúða- eða bílalán.

Í heild eru um 23% heimila í vanda og eru þau með mun stærri hluta heildarbílaskulda en stærð hópsins segir til um. Þannig eru þau með um 42% af heildarbílaskuldum en hlutdeild þeirra í íbúðarlánum er 27% sem er meira í takt við stærð hópsins. Að mati bankans er vísbending um að skuldsetning heimila í vanda vegna bílakaupa gegni mikilvægu hlutverki í að skapa þann vanda sem þau eiga við að etja og eru um 3.800 af þeim með fleiri en eitt bílalán.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×