Lífið

Garðar og Ásdís bíða eftir 17 milljónum

Fótboltafélagið CSKA Sofia á í miklum vandræðum og hefur ekki greitt Garðari milljónalaun sem hann á inni.
Fótboltafélagið CSKA Sofia á í miklum vandræðum og hefur ekki greitt Garðari milljónalaun sem hann á inni.

„Við verðum að sitja á rassgatinu og bíða eftir að eitthvað gerist. Þeir fá peninga annað slagið og greiða út og við erum að bíða eftir að það komi að okkur," segir fyrirsætan og athafnakonan Ásdís Rán Gunnarsdóttir en búlgverskir fjölmiðlar birtu viðtal við hana um málið á dögunum.

Garðar Gunnlaugsson, eiginmaður Ásdísar, hefur ekki fengið greidd laun frá fótboltaliðinu CSKA Sofia í Búlgaríu svo mánuðum skiptir. Garðar spilar núna með LASK Linz í Austurríki og bíður eftir að búlgarska liðið greiði þeim hjónum um 100.000 evrur, eða um 17 milljónir íslenskar.

„Þetta var meira. Við gáfum þeim helmingsafslátt. Þetta voru 200.000 evrur," segir Ásdís. Hún segir launaleysið hafa skapað talsverð vandræði þar sem fjölskyldan lifir ekki á tekjum hennar til lengri tíma. „Það hefur mikil áhrif að fá ekki laun í marga mánuði," segir hún. „Ég er náttúrulega með mín laun en ég næ ekki að halda okkur uppi. Við erum með eignir og lán í þremur löndum: á Íslandi, í Svíþjóð og Búlgaríu. Við þurfum að borga mikið og ef við fáum ekki borgað fer allt í skít."

CSKA Sofia er í miklum fjárhagserfiðleikum og hefur fengið frest fram að mánaðamótum til að greiða úr sínum málum, áður en viðurlögum verður beitt. „Ef þeir ná ekki að borga þá fer félagið líklegast á hausinn," segir Ásdís. „Þetta er stærsta liðið hérna og ef það færi á hausinn myndi það hafa alveg hræðilegar afleiðingar. Ég trúi ekki að þeir finni ekki peninga til að greiða upp skuldirnar."

- afb

 

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.