Viðskipti innlent

Lækkun ferðamannagjaldeyris er úlfur í sauðagæru

Greining Arion banka segir að lækkun á heimild fyrir ferðamannagjaldeyri sé táknræn fyrir það bil sem verið hefur milli orða og athafna Seðlabankans hvað gjaldeyrishöftin varðar.

Á vefsíðu greiningarinnar segir að við fyrstu sýn lítur aðgerð Seðlabankans um að lækka hámarksfjárhæð heimildar til kaupa á erlendum gjaldeyri í reiðufé vegna ferðalaga úr 500.000 krónum í 350.000 krónur fremur sakleysislega út. Lækkun fjárhæðarinnar hefur engin stórkostleg áhrif á íslenska ferðalanga svo lengi sem greiðslukort eru enn gjaldgeng á erlendri grundu.

„Að okkar mati hefur yfirlýsingin ef til vill þyngra vægi en látið er í veðri vaka. Þegar höftunum var komið á upphaflega í nóvember 2008 var látið í veðri vaka að þau væri svo ströng að allar leiðir hlytu að liggja til slökunar. Annað hefur hins vegar komið á daginn," segir greiningin.

„Því þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi lýst því yfir reglulega að afnám haftanna væri rétt handan við hornið hefur flestar aðgerðir bankans gengið í þveröfuga átt, til herðingar, enda í okkar huga var aflétting á innflæði gjaldeyris í október 2009 ansi léttvægt skref í afléttingu hafta. Lækkun á heimild fyrir ferðagjaldeyri er því táknræn fyrir það bil sem hefur verið á milli orða og athafna Seðlabankans."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×