Viðskipti innlent

Kúabændur vilja færa mjólkurkvóta í gegnum sameiginlegan tilboðsmarkað

Kýr á beit. Kúabændur eru afar skuldsettir.
Kýr á beit. Kúabændur eru afar skuldsettir.

Á nýafstöðnum aðalfundi Landssambands kúabænda var samþykkt ályktun þess efnis "að öll viðskipti með greiðslumark í mjólk, sem færist milli lögbýla fari í gegnum sameiginlegan tilboðsmarkað sem taki til starfa eigi síðar en kvótaárið 2011".

Fyrir fundinn var lögð greinargerð framkvæmdastjóra Landssambands kúabænda um danska kvótamarkaðinn, sem starfað hefur um nokkurra ára skeið. Tekið yrði mið af þeirri stefnu.

Formaður Landsambands Kúabænda, Sigurður Loftsson, sagði í viðtali við Fréttablaðið á mánudaginn að hann hefði áhyggjur ef af því verði að bú verði tekin til skipta í gegnum lánastofnanir þá sé hættan sú að verðmætum verði ráðstafað til valinna aðila.

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur lýst yfir áhyggjum sínum af stöðu kúabænda og þeirri hættu að kvóti færist frá viðkomandi jörð með tilheyrandi byggðaröskun og samþjöppun mjólkurkvóta á fárra manna hendur. Hann telur eðlilegt að stjórnvöld leggist yfir það hvort eðlilegt sé að grípa inn í, jafnvel með miðlægum kvótamarkaði.

Heildarskuldir kúabænda eru metnar um 44 milljarðar króna. Þau bú sem verst standa eru talin eiga um fimmtán prósent af 116 milljóna lítra ársframleiðslu. Hver lítri mjólkurkvóta er í dag metinn á um 250 krónur svo um milljarða hagsmuni er að tefla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×