Viðskipti innlent

Reisa sextán hæða hótel á Höfðatorgi

Ólafur Torfason hótelstjóri ætlar að opna hótelið árið 2013 en það hefur fengið vinnuheitið Fosshótel Reykjavík.
Ólafur Torfason hótelstjóri ætlar að opna hótelið árið 2013 en það hefur fengið vinnuheitið Fosshótel Reykjavík.

Fjórtán til sextán hæða hótel, með um þrjú hundruð herbergjum, mun rísa á Höfðatorgi í Borgartúni á næstu þremur árum. Verktakafyrirtækið Eykt hefur séð um framkvæmdir á Höfðatorgsreitnum en fyrirtækið á nú í viðræðum um fjármögnun verksins.

„Menn ætla að skoða hvernig ástandið er á markaðnum. En ég er búinn að gera leigusamning og fyrirhugað er að opna árið 2013," segir Ólafur Torfason hótelstjóri, sem rekur þrjú hótel undir merkjum Reykjavík Hotels.

Skipulag við Höfðatorg var kynnt fyrir um fjórum árum. Þá var gert ráð fyrir þremur turnum og sex sjö til níu hæða húsum ásamt tengibyggingum á reitnum. Eini turninn sem risið hefur til þessa er upp á nítján hæðir. Búið er að leigja út um helming alls rýmis í honum undir ýmiss konar starfsemi, svo sem veitingarekstur á neðstu hæðum. Nokkur fyrirtæki eru með skrifstofur á hæðunum fyrir ofan. Eftir því sem næst verður komist hefur einn turnanna verið settur í salt um óákveðinn tíma ásamt nokkrum byggingum á reitnum.

Eins og sjá má á teikningu af reitnum er áætlað að hótelturninn rísi vestan megin við skrifstofuhúsnæðið. Hann er grænn á myndinni.
Ólafur Torfason er þrautreyndur í hótelrekstri. Hann hefur rekið Hótel Reykjavík við Rauðarárstíg frá 1992 og festi kaup á Holiday Inn, nú Grand Hótel, af Íslandsbanka þremur árum síðar. Þá rekur hann Hótel Reykjavík Centrum í miðbænum. Hótelin eru rekin undir merkjum Reykjavík Hotels.

Óbyggða hótelið hefur fengið vinnuheitið Fosshótel Reykjavík, en Ólafur

hefur síðastliðin tvö ár látið til sín taka í rekstri Fosshótelanna.

Ólafur segir rekstur hótela almennt ganga ágætlega nú um stundir.

Þó verði að kynna landið betur á erlendum vettvangi. „Ef við gerum það vel hef ég engar áhyggjur," segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×