Erlent

Vesturlönd gefa lítið fyrir kosningarnar í Búrma

Aung San Suu Kyi, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Búrma.
Aung San Suu Kyi, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Búrma.

Helstu leiðtogar á vesturlöndum gefa lítið fyrir fyrstu lýðræðislegu kosningarnar í Búrma í tvo áratugi og segja þær hvorki frjálsar né sanngjarnar. Barack Obama Bandaríkjaforseti er á ferð um Asíu og hann sagði í gær að kosningarnar hefðu ekki mætt kröfum alþjóðasamfélagsins.

Leiðtogar Evrópusambandsins hafa einnig gagnrýnt kosningarnar harðlega en þeir flokkar sem fóru með sigur af hólmi tengjast allir hernum og herforingjastjórn landsins með einum eða öðrum hætti. Helsti stjórnarandstöðuflokkurinn hvatti kjósendur hins vegar til þess að sitja heima og hundsa kosningarnar. Fréttamaður BBC í Búrma, sem fer huldu höfði, segir að kjósendur hafi sagst sér að þeir hafi ekki fengið að kjósa í einrúmi og að ríkisstarfsmenn hafi verið þvingaðir til þess að greiða stærsta stjórnarflokknum atkvæði sín í utankjörfundaratkvæðagreiðslu.

Tuttugu ár eru síðan íbúar Burma gátu síðast mætt á kjörstað en þá sigraði NLD flokkurinn, með Aung San Sú Kyi í broddi fylkingar með miklum yfirburðum. Herforingjastjórnin virti þá niðurstöðu hinsvegar að vettugi og Sú Kyi hefur setið í stofufangelsi síðan þá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×