Viðskipti innlent

Höfnuðu sátt FME, borga tvöfalda upphæðina í sekt

Tvö sveitarfélög, Reykjanesbær og Langanesbyggð, brutu gegn lögum um verðbréfaviðskipti í fyrra að mati Fjármálaeftirlitsins (FME). Báðum félögunum var boðin sátt í málinu en þau höfnuðu bæði þeirri sátt. Þá fengu þau stjórnvaldssekt á sig í staðinn og nam sektin tvöfaldri sáttarupphæðinni í báðum tilvikum.

Fjallað er um málið á vefsíðu FME. Þar segir að málsatvik eru þau að við athugun Fjármálaeftirlitsins í maí 2009 á skilum á innherjalistum kom í ljós að Reykjanesbær, sem útgefandi skráðra skuldabréfa, hafði ekki með fullnægjandi hætti skilað listum yfir fruminnherja og aðila þeim fjárhagslega tengdum til Fjármálaeftirlitsins, þrátt fyrir að hafa fengið aðgang að rafrænu skýrsluskilakerfi Fjármálaeftirlitsins, þann 17. Desember 2008.

Fjármálaeftirlitið bauð Reykjanesbæ að gangast undir sátt að fjárhæð kr. 400.000 þann 4. júní 2009, en sáttinni var hafnað.

Fjármálaeftirlitið mat það svo að brot Reykjanesbæjar félli undir lög um verðbréfaviðskipti og bæri að ljúka með stjórnvaldssekt. Við ákvörðun fjárhæðar stjórnvaldssektar var litið til þess hve lengi brotið hafði varað og sambærilegra mála. Með hliðsjón af framangreindu þótti hæfilegt að gera Reykjanesbæ stjórnvaldssekt að fjárhæð kr. 800.000.

Hvað Langanesbyggð varðar er um sömu málsatvik að ræða þ.e. Langanesbyggð, sem útgefandi skráðra skuldabréfa, hafði ekki skilað listum yfir fruminnherja og aðila þeim fjárhagslega tengdum til Fjármálaeftirlitsins síðan 2. ágúst 2007 en samkvæmt lögum er útgefanda slíkra fjármálagerninga skylt að skila uppfærðum lista a.m.k. á 6 mánaða fresti.

Fjármálaeftirlitið bauð Langanesbyggð að gangast undir sátt að fjárhæð kr. 650.000 þann 21. ágúst 2009, en sáttinni var hafnað.

Fjármálaeftirlitið mat það svo að brot Langanesbyggðar félli undir lög um verðbréfaviðskipti og bæri að ljúka með stjórnvaldssekt. Við ákvörðun fjárhæðar stjórnvaldssektar var litið til þess hve lengi brotið hafði varað og sambærilegra mála. Með hliðsjón af framangreindu þótti hæfilegt að gera Langanesbyggð stjórnvaldssekt að fjárhæð kr. 1.300.000.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×