Viðskipti innlent

Tal sett í sölu í opnu útboðsferli

Allt hlutafé í fjarskiptafyrirtækinu Tali (IP fjarskiptum ehf.) verður selt í opnu útboðsferli sem hefst með birtingu auglýsingar um miðjan maí. Öllum fjárfestum sem uppfylla lagaskilyrði um fagfjárfesta stendur til boða að bjóða í hlutaféð, öðrum en þeim sem hafa markaðsráðandi stöðu á fjarskiptamarkaði.

Í tilkynningu segir að áhersla verður lögð á að söluferlið verði opið, gagnsætt og auðskilið. Verðbréfafyrirtækið Tindar verðbréf mun annast söluna.

Tal er þriðja stærsta fjarskiptafyrirtækið á Íslandi og varð til við samruna Hive og Sko árið 2008. Tal sérhæfir sig í alhliða fjarskiptaþjónustu við heimili og er með um 15% hlutdeild á þeim markaði. Tal hefur frá upphafi lagt áherslu á að bjóða þjónustu á lægra verði en keppinautarnir og stuðla þannig að aukinni samkeppni á fjarskiptamarkaði.

Gert er ráð fyrir að söluferlið, sem verður kynnt nánar með auglýsingu síðar, hefjist um miðjan maí og að því ljúki fyrir lok júní.

Nánari upplýsingar um söluferlið verða veittar hjá Tindum verðbréfum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×