Viðskipti innlent

Yfirveðsett íbúðalán í bönkum nema 85 milljörðum

Lilja Ólafsdóttir stjórnarformaður og Gunnar Þ. Andersen forstjóri voru viðstödd ársfund Fjármálaeftirltisins í dag. Mynd/ Pjetur.
Lilja Ólafsdóttir stjórnarformaður og Gunnar Þ. Andersen forstjóri voru viðstödd ársfund Fjármálaeftirltisins í dag. Mynd/ Pjetur.

Um mitt ár 2010 voru útlán með veði í íbúðarhúsnæði hjá viðskiptabönkunum 261 milljarðar kr. og 42 milljarðar kr. hjá sparisjóðunum, eða samtals 303 milljarðar kr. Um 28% þessara lána eru með veðhlutfall sem er yfir 100% eða samtals ríflega 85 milljarðar kr.

Þetta kemur fram í ársskýrslu Fjármálaeftirlitsins. Þar segir að hjá bönkunum nema þessi útlán 72,8% af eiginfjárgrunni, en neikvæð eiginfjárstaða nokkurra sparisjóða gerir erfitt um vik við slíkan útreikning hjá þeim í heild. Á sama tíma eru lán með veði í íbúðarhúsnæði hjá bönkunum 17,1% af lánum til viðskiptavina, en 19,7% hjá sparisjóðunum.

Um 45% af heildarútlánum viðskiptabanka og stærstu sparisjóða eru með veði í íbúðarhúsnæði með veðhlutfall undir 70%, 19% slíkra lána er með veðhlutfallið 70 - 90% og 36% þeirra eru með veðhlutfall yfir 90% en þar af eru 28% með yfir 100% veðhlutfall.

Í fjárhæðum talið eru 109,5 milljarðar kr. af lánum viðskiptabanka og sparisjóða með veðhlutfall yfir 90% en þar af 85,5 milljarða kr. með veðhlutfall yfir 100%.

Það þarf ekki að koma á óvart að þessi hlutföll hafa öll skekkst verulega eftir hrun bankanna, en misserin þar á undan var algengt að um 10% af heildarútlánum viðskiptabankanna og stærstu sparisjóðanna með veði í íbúðarhúsnæði lentu í flokknum með veðhlutfall yfir 100%, samanborið við 28% nú.

FME með töluverðar áhyggjur

Mikilvægur þáttur í endurreisn bankanna er endurskipulagning á lánasöfnum þeirra. Ljóst er að þær áætlanir sem bankarnir settu sér í upphafi árs 2009 hafa ekki gengið eftir og gengur endurskipulagningin hægar en vonir stóðu til.

Fjármálaeftirlitið hefur af þessu töluverðar áhyggjur og þar sem þetta er ein stærsta áhættan í rekstri fjármálafyrirtækjanna er mjög mikilvægt að hraða þessu ferli eins og kostur er.

Stóru viðskiptabankarnir þrír hafa skilað inn til Fjármálaeftirlitsins lánasafnsskýrslum frá því í október 2009. Í þessum skýrslum er haldið utan um stöðu lánasafns bankanna og skiptingu safnsins eftir því hvort lán eru í vanskilum eða frystingu, í skilum eftir endurskipulagningu eða í skilum án endurskipulagningar.

Hlutfall stærri fyrirtækjalána eykst

Hvað varðar stærri fyrirtækjalán (yfir 100 milljóna kr. kröfuvirði) hefur hlutfall slíkra lána m.v. bókfært virði útlánaflokksins farið úr 5% frá október 2009 upp í 26% í ágúst 2010. Hvað varðar smærri fyrirtæki (undir 100 milljónir kr. kröfuvirði) hefur hlutfallið lækkað úr 13% niður í 10%.

Hlutfall lána sem búið er að endurskipuleggja hjá einstaklingum með stærri lán (yfir 100 milljóna kr. kröfuvirði) hefur farið úr 6% upp í 14% og hvað varðar einstaklinga með minni lán hefur hlutfall endurskipulagðra lána farið úr 15% upp í 28%.

Þrátt fyrir að bankarnir séu búnir að endurskipuleggja töluverðan hluta lánasafnsins hefur lánum í vanskilum eða frystingu ekki fækkað mikið. Það skýrist af því að á sama tíma og bankarnir voru að endurskipuleggja lánasöfn sín fækkaði þeim útlánum sem voru í skilum án endurskipulagningar.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×