Viðskipti innlent

Óljóst hvort laun seðlabankastjóra hafi lækkað

Hafsteinn Hauksson skrifar

Varaformaður bankaráðs Seðlabankans segir ekki rétt að bankaráð hafi ákveðið að hækka laun seðlabankastjóra umfram úrskurð kjararáðs. Hann getur þó ekki tekið af tvímæli um að úrskurður kjararáðs sé kominn til framkvæmda.

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sakaði í gær fulltrúa stjórnarflokkanna í bankaráði um að hafa úrskurð kjararáðs um launalækkun Seðlabankastjóra að engu og hyggðist greiða honum hærri laun en úrskurðurinn segir til um.

Þessa fullyrðingu hafa tveir fulltrúar í bankaráði Seðlabankans hrakið og segja engar ákvarðanir hafa verið teknar um að hækka laun seðlabankastjóra umfram úrskurðinn. Ragnar Arnalds, varaformaður ráðsins, tekur þó ekki af öll tvímæli um að úrskurður kjararáðs sé kominn til framkvæmda.

Spurður hvort Seðlabankastjóri fái greitt samkvæmt úrskurði kjararáðs í dag segist Ragnar ekki þekkja það í smáatriðum. "Það var ljóst að þetta kæmi til framkvæmda eftir einhverjum ákveðnum reglum og þú verður að spyrja einhvern annan um það hvað hann fær greitt og frá hvaða tíma. Ég þekki það bara ekki persónulega" segir Ragnar.

"Það eina sem snýr að okkur beint í bankaráðinu er hvort við myndum taka viðbótarákvörðun um ðað hækka frá því sem kjararáðið hafði ákveðið. Þá ákvörðun tókum við ekki, það er aðalatriðið. Hitt, hvenær ákvörðun kjararáðsins kemur formlega til framkvæmda, er tæknilegt atriði sem ég þekki ekki."

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra segir þó að það sé á ábyrgð bankaráðs að framfylgja úrskurði kjararáðs í samræmi við aðra þætti.

"Síðan er það í höndum bankaráðs seðlabankans að láta hann [úrskurð kjararáðs] koma til framkvæmda eftir því sem lög og reglur og ráðningarsamningar mæla fyrir um. Það eiga að sjálfsögðu allir að framfylgja lögum og niðurstöðu kjararáðs, en það er væntanlega skoðað í hverju tilviki hvernig það stendur af sér gagnvart réttindum viðkomandi aðila og þeim samningum sem fyrir lágu þegar úrskurðurinn féll. Maður treystir því að það sé gert í samræmi við lög og reglur."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×