Viðskipti innlent

Útlán ÍLS minnka um helming milli mánaða

Þróun útlána Íbúðalánasjóðs (ÍLS) undanfarið er til marks um þá ládeyðu sem ríkir á innlendum fasteignamarkaði þessa dagana. Í apríl námu almenn útlán ÍLS til íbúðakaupa rúmum 800 milljónir kr. sem er ríflega helmingi lægri fjárhæð en þau voru í mars síðastliðnum þegar þau voru 1,8 milljarða kr.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að jafnframt eru útlán sjóðsins nú í apríl mun lægri en þau hafa að jafnaði verið síðasta árið, en sjóðurinn hefur að meðaltali lánað rúmlega 1,5 milljarða kr. á mánuði til íbúðarkaupa frá því í apríl á síðasta ári.

Meðalútlán almennra lána voru um 8,4 milljónir kr. í mánuðinum og eru 9% lægri en þau voru í mánuðinum á undan en 21% lægri en þau voru á sama tíma í fyrra. Til viðbótar við almenn útlán veitti sjóðurinn önnur útlán upp á 400 milljónir kr.

Námu heildarútlán sjóðsins því ríflega 1,2 milljörðum kr. í apríl og hafa í raun sjaldan verið lægri. Þetta kom fram í mánaðarskýrslu ÍLS sem birt var í gær.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×