Viðskipti innlent

Nýr við stýrið hjá Hagfræðistofnun

Sveinn Agnars­son hefur unnið hjá Hagfræðistofnun í áratug.Markaðurinn/vilhelm
Sveinn Agnars­son hefur unnið hjá Hagfræðistofnun í áratug.Markaðurinn/vilhelm

„Þetta verður með hefðbundnu sniði, ámóta og það hefur verið undanfarin ár,“ segir Sveinn Agnarsson hagfræðingur sem um áramótin tók við starfi forstöðumanns Hagfræðistofnunar háskólans af Gunnari Haraldssyni. Ekki var vatnið sótt langt yfir lækinn en Sveinn hefur unnið sem fræðimaður hjá stofnuninni í áratug.

Gunnar hafði verið forstöðumaður í slétt þrjú ár en hann tók við af Tryggva Þór Herbertssyni, nú alþingismanni. Gunnar hefur nú tekið við starfi hjá deild Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í París í Frakklandi sem hefur rannsóknir á sjávarútvegsmálum aðildarríkja stofnunarinnar á sinni könnu. Hann var nýlentur París í vikubyrjun þegar Markaðurinn hafði tal af honum.

Gunnar er jafnframt formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins (FME). Hann hefur staðfest að hann muni hætta en hefur ekki gert það formlega. Eftirmaður hans hefur ekki verið skipaður, samkvæmt upplýsingum frá FME.

Sveinn hefur fengist við rannsóknir á auðlindum og framleiðni hér á landi en hann vann meðal annars fyrir auðlindanefnd ásamt Gunnari árið 2001. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×