Erlent

Rolling Stones undirbúa síðustu tónleikaförina um heiminn

Hin heimsþekkta hljómsveit Rolling Stones er að undirbúa tónleikaför um heiminn sem að öllum líkindum verður sú allra síðasta sem hljómsveitin fer í enda allir meðlimir hennar komnir á ellilífeyrisaldurinn.

Fjallað er um málið á Bloomberg fréttaveitunni en eftir aðeins tvö ár getur Rolling Stones fagnað því að hafa lifað í hálfa öld og er því brátt að verða langlífasta rokkhljómsveit sögunnar. Þar að auki hefur þeim tekist að vera á toppnum allan þennan tíma.

Ekki er búið að ákveða tímasetninguna á þessari tónleikaför en tónleikahaldarar um allan heim eru þegar teknir að bjóða í tónleika hljómsveitarinnar enda eftir töluverðu að slægjast.

Í síðustu tónleikaför Rolling Stones um heiminn árin 2005 og 2006 sem gekk undir nafninu A Bigger Bang námu tekjurnar af tónleikahaldinu í heild yfir 60 milljörðum króna.

Allar líkur eru á að þetta verði síðasta ferð Rolling Stones um heiminn sökum aldurs meðlima sveitarinnar. Þannig er nefnt til sögunnar að líklega muni trommarinn Charlie Watts halda upp á sjötugsafmæli sitt í ferðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×