Viðskipti innlent

Ísland hrapar niður listann yfir mestu verðbólgulöndin

Verðbólgan hér á landi var 3,8% í nóvember samkvæmt samræmdri vísitölu neysluverðs sem Hagstofa Evrópusambandsins (e. Eurostat) tekur saman og birti nú í morgun. Minnkar því verðbólgan um 0,8 prósentustig milli mánaða en hún var 4,6% hér á landi í október samkvæmt vísitölunni. Íslæand hrapar niður listan yfir Evrópulönd með mesta verðbólgu.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að í nóvember fyrir ári mældist verðbólgan hér á landi m.v. samræmdu vísitöluna 12,4% og hefur þar með hjaðnað umtalsvert síðasta árið enda eru þau áhrif sem gengislækkun krónunnar hafði á verðbólgu í aðdraganda og samhliða hruni bankakerfisins nær horfin.

Á sama tíma og verðbólga minnkar hér á landi hefur hún aukist nokkuð í flestum öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Þannig var verðbólgan að meðaltali 2,3% í ríkjum EES nú í nóvember en fyrir ári síðan mældist hún 1,1%.

Milli október og nóvember dregur mest úr verðbólgu á Kýpur (úr 3,2% í 1,7%) og næstmest á Íslandi. Mest eykst hún milli mánaða á Möltu (úr 2,2% í 3,4%) og svo á Lettlandi (úr 0,9% í 1,7%). Er Ísland þar með komið dottið niður í sjötta sæti á listanum yfir mestu verðbólgu í ríkjum EES, en sem kunnugt er vermdi landið lengi vel efsta sætið þessa lista.

Verðbólgan mældist mest í nóvember í Rúmeníu (7,7%), þar á eftir í Eistlandi (5,0%) og svo Grikklandi (4,8%). Líkt og upp á síðkastið er það aðeins Írland sem upplifði ástand verðhjöðnunar í nóvember, en þar hefur samræmd vísitala lækkað um 0,8% á síðustu tólf mánuðum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×