Erlent

Lifði af 50 metra fall

Háhýsin í Auckland.
Háhýsin í Auckland. Mynd/AFP
15 ára nýsjálenskur drengur lifði af hvorki meira né minna en 50 metra fall, þrátt fyrir að hafa lent á steinsteypu um helgina.

Hann féll niður af svölum á himinhárri íbúðablokk en slapp með brotið rifbein, brákaðan úlnlið, auk smámeiðsla innvortis og á fæti.

Nágranni tilkynnti atvikið. Hann stóð reykjandi á svölum fyrir neðan þegar drengurinn féll framhjá.

Læknar segja atvikið kraftaverk og að drengurinn verði útskrifaður í lok vikunnar. Samkvæmt þeim er það ekki algengt að fólk lifi meira en 15 metra fall af. Þá eru það höfuðmeiðsl sem eru hættulegust en drengurinn var heppinn að lenda ekki á höfðinu.

Einnig var það honum til happs að hafa fallið í gegnum stálstyrkt þak bílastæðahúss fyrir neðan áður en hann lenti á steinsteypunni. Það beyglaðist og dró úr fallinu þegar hann féll í gegnum það.

Ekki liggur ljóst fyrir hvernig drengurinn datt fram af svölunum. Móðir hans var farin að sofa og átti hann að klára heimalærdóminn í tölvunni sinni.

Húsvörðurinn segir svalirnar öruggar og handriðin ná hávöxnustu mönnum upp á bringu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×