Innlent

Vilja taka lán fyrir framkvæmdum

Sinna þarf viðhaldi húsa og borgarumhverfis, segir í atvinnustefnu Samfylkingarinnar sem vill hefja framkvæmdir í Breiðholti. Fréttablaðið/GVA
Sinna þarf viðhaldi húsa og borgarumhverfis, segir í atvinnustefnu Samfylkingarinnar sem vill hefja framkvæmdir í Breiðholti. Fréttablaðið/GVA

Brýnt er að framkvæmdir verði ekki skornar niður í kreppunni heldur þeim haldið áfram, segir í atvinnustefnu Samfylkingarinnar sem samþykkt var á Reykjavíkurþingi flokksins um helgina. Lagt er til að tekin verði lán til þess að halda framkvæmdastiginu uppi. Borgarsjóður ráði við lántökur sem forðað gætu framkvæmda- og byggingariðnaði frá algjöru hruni.

Þá er lagt til að viðhaldi fasteigna borgarinnar verði flýtt og að lögð verði fram heildstæð áætlun um endurnýjun eldri hverfa, borgarumhverfis og útisvæða. Lagt er til að þessar framkvæmdir hefjist í Breiðholti. Verklegar framkvæmdir verði einnig tryggðar með því að skikka eigendur niðurníddra húsa til að lagfæra þau auk þess sem atvinnutækifærum hönnuða, arkitekta og iðnaðarmanna verði fjölgað með því að auðvelda breytingar á íbúðarhúsnæði sem geri eldri borgurum kleift að búa lengur heima og auðveldi aðgengi fatlaðra.

Til þess að lífskjör og velferð verði óbreytt í Reykjavík þarf að tryggja 3,5 prósenta meðalhagvöxt í borginni næsta kjörtímabil, segir í stefnuskránni, og að stefna eigi að 5 prósenta hagvexti árið 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×