Viðskipti innlent

Þriðjungur starfsmanna Kaupþings geta ekki greitt hlutabréfalán

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Kaupþing.
Kaupþing.

Um þriðjungur starfsmanna Kaupþings sem fengu lán til hlutabréfakaupa eiga ekki fyrir skuld sinni við þrotabúið. Fimmtán starfsmenn hafa þegar gert upp sín mál og hlaupa upphæðir í þeim málum á tugum milljóna króna.

Slitastjórn Kaupþings sendi fyrir nokkru þeim starfsmönnum bankans sem höfðu fengið lán til hlutabréfakaupa riftun á niðurfellingu persónulegra ábyrgða. Heildarfjárhæð lánanna nam hátt í 32 milljörðum króna en tæplega helmingur þess fjárhæðar var veittur að láni með persónulegri ábyrgð sem nam í flestum tilfellum um 10%.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa um 15 starfsmenn þegar gert upp sín mál og bendir nú flest til að sáttum verði náð í um helmingi skuldamálanna. Upphæðir í þessum 15 skuldamálum hlaupa á tugum milljóna króna.

Flestir gera upp samkvæmt tilboði slitastjórnar sem er eftir því sem fréttastofa kemst næst að fólk greiði á bilinu 60 til 70% af skuldinni. Afslátturinn er gefinn til að komast hjá málaferlum.

Um þriðjungur starfsmannanna eiga ekki fyrir skuldunum sínum. Samkvæmt heimildum hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort að þessir aðilar verði keyrðir í þrot.

Mál þeirra sem ekki una riftun og semja ekki við slitastjórn bankans hafa verið þingfest fyrir dómi eða verða þingfest á næstu vikum. Meðal þeirra eru allra stærstu skuldararnir en um tuttugu lykilstarfsmenn gamla Kaupþings skulda bankanum um 90% af heildarfjárhæð lánanna.

Innheimta lánanna hefur tekið lengri tíma en áætlað var og er ljóst að niðurstaða er ekki handan við hornið en allt að þrjú ár geta liðið áður en fullnaðarniðustaða dómstóla fæst í þessi mál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×