Viðskipti innlent

Skuldamál Magnúsar búið að velkjast í dómskerfinu í 15 mánuði

Valur Grettisson skrifar
Magnús Ármann.
Magnús Ármann.

Aðalmeðferð fer fram í dag í máli Arion banka gegn Magnúsi Ármanni, Kevin Standford og einkahlutafélaginu Materia invest.

Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í lok ágúst 2009. Málið hefur því verið að velkjast í dómskerfinu í 15 mánuði.

Arion banki krefst þess að Magnús og Kevin standi skil á 730 milljóna króna láni til Materia Invest.

Auk þess stefndi Arion banki upphaflega Þorsteini Jónssyni, þriðja eiganda félagsins, oft kenndur við kók, en hann hefur að eigin sögn samið við bankann.

Félagið Materia Invest var um tíma í hópi stærstu hluthafa FL Group.

Ef ábyrgðin fellur á þá Magnús og Stanford þurfa þeir að greiða 240 milljónir króna hvor.

Fari svo að aðalmeðferð klárist í dag, sem er alls óvíst, því mögulegt er að boða til framhaldsaðalmeðferðar, þá mun úrskurður dómara liggja fyrir innan þriggja vikna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×