Viðskipti innlent

Bakkavör greiði allt en fresti gjalddögum

Bakkavör mun í dag óska eftir heimild til að leita nauðasamnings við lánardrottna. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins hafa kröfuhafar rúmlega 70 prósenta skulda félagsins þegar samþykkt innihald nauðasamningsins.

Í frumvarpi að nauðasamningnum, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, er gert ráð fyrir að engar afskriftir verði á skuldum Bakkavarar. Hins vegar verður gjalddögum á lánum frestað þannig að þau verði að fullu greidd með vöxtum um mitt ár 2014 - eða eftir fjögur og hálft ár.

Um gríðarlegar fjárhæðir er að ræða því móðurfélag Bakkavarar skuldar lánardrottnum um 62,5 milljarða króna. Íslenskir lífeyris­sjóðir eru þar fremstir í flokki.

Stofnendum og aðaleigendum Bakkavarar, bræðrunum Lýði og Ágústi Guðmundssyni, er ætlað að stýra félaginu áfram. Gangi áætlunin eftir munu bræðurnir fá að skrifa sig fyrir 25 prósenta hlut í Bakkavör á árinu 2014. Verður þá miðað við að gengi bréfanna sé 1,0. Kröfuhafarnir fá hins vegar þegar í stað 26,67 prósenta hlut í félaginu. Á móti þeim hlut reiknast 784 milljónir króna af skuldum Bakkavarar, eða um 1 prósent af heildarskuldum félagsins. Í þeim viðskiptum reiknast hlutabréfin á genginu 1,0. Kröfuhafar geta eignast enn stærri hlut gangi greiðsluáætlunin ekki eftir. Að öðru leyti halda núverandi hluthafar í Bakkavör hlut sínum. Félagið verður skráð úr Kauphöllinni þar til rekstraráformin eru orðin að veruleika.

Samkvæmt frumvarpinu til nauðasamningsins fela tvær mismunandi leiðir varðandi hlutafjáreign kröfuhafanna í Bakkavör það sama í sér. „Hver sem uppgjörsaðferðin verður munu lánardrottnar fá í hendur verðmæti sem jafngilda fjárhæð samningskrafna þeirra á hendur Bakkavör (100%)," segir í frumvarpinu. - gar








Fleiri fréttir

Sjá meira


×