Erlent

Sarkozy sker upp herör gegn sígaunum

Óli Tynes skrifar
Nicolas Sarkozy er í vígahug.
Nicolas Sarkozy er í vígahug.

Sígaunar í Frakklandi eru bæði reiðir og hræddir eftir að Nicolas Sarkozy forseti skar upp herör gegn ólöglegum innflytjendum úr þeirra röðum.

Fyrr í þessum mánuði efndu sígaunar til mikilla óeirða eftir að ungur maður var skotinn til bana þegar hann reyndi að komast undan lögreglunni í Loire dalnum.

Kveikt var í bílum og margvísleg önnur skemmdarverk unnin.

Á fundi sem haldinn var af því tilefni sagði forsetinn sagði að þeim sem bæru ábyrgðina yrði refsað harðlega.

Hann hvatti einnig til aðgerða gegn sígaunum frá Austur Evrópu. Hann vildi láta leysa kerfisbundið upp ólöglegar búðir þeirra og vísa þeim úr landi.

Forsetinn vildi einnig láta herða lög um innflytjendur til þess að gera brottvísun auðveldari.

Sígaunar minna í þessu sambandi á að eftir að Þjóðverjar hernámu Frakkland í síðari heimsstyrjöldinni hafi sígaunum verið safnað saman og þeir sendir í útrýmingarbúðir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×