Viðskipti innlent

Vinnslustöðin greiðir veglegan jólabónus

Mynd úr safni.
Mynd úr safni.

Stjórn Vinnslustöðvarinnar hf. í Vestmannaeyjum ákvað að starfsmenn í landvinnslu fyrirtækisins fengju greiddan 200.000 króna kaupauka nú fyrir jólin, þ.e. þeir sem hafa verið í fullu starfi allt árið. Aðrir fá greitt í samræmi við starfshlutfall.

Í tilkynningu frá Vinnslustöðinni segir að með þessum jólabónus fylgi hátíðarkveðja og innilegt þakklæti í garð starfsfólks fyrir vel unnin störf á árinu sem er að líða.

„Alls eru nú um 280 stöðugildi til lands og sjávar hjá Vinnslustöðinni og fjölgaði um 50 árið 2010. Eitt skip bættist í flota félagsins á árinu," segir einnig.

Þá segir að samdráttur veiða úr helstu nytjastofnum Íslendinga hafi sett mark sitt á afkomu og kjör Vinnslustöðvarinnar og starfsmanna félagsins á undanförnum árum, líkt og í sjávarútveginum yfirleitt. „Nú þegar hillir undir að þorskstofninn styrkist og aflaheimildir verði auknar á nýjan leik er að sjálfsögðu sanngjarnt að þeir, sem tóku á sig skerðinguna, njóti þess."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×