Viðskipti innlent

Skuldatryggingaálag ríkissjóðs hækkar á ný

Skuldatryggingaálag ríkissjóðs Íslands til fimm ára stendur nú í 284 punktum (2,84%). Hefur álagið hækkað um 35 pkt. frá því fyrir viku síðan þegar það stóð í 249 pkt. og hafði þá ekki verið lægra síðan fyrir bankahrun.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að enn sé álagið þó lágt miðað við það sem verið hefur undanfarin misseri, en álagið hefur að meðaltali verið 464 pkt. það sem af er þessu ári og 652 pkt. á síðasta ári.

Sú hækkun sem orðið hefur á skuldatryggingaálagi ríkissjóðs Íslands undanfarna viku á sér líklega skýringu í almennri hreyfingu á markaði en tekur ekki til innlendra þátta eða framvindu efnahagsmála hér á landi undanfarna viku.

Þannig hefur álag annarra ríkja einnig hækkað á þessu tímabili, sem endurspeglar aukna áhættufælni. Til að mynda hefur álag Grikklands hækkað um 153 pkt. síðan fyrir viku og er nú 650 pkt. Álag Portúgals hefur hækkað um 90 pkt. á sama tímabili og er nú 283 pkt., og álag Írlands og Spánar er nú um það bil 50 pkt. hærra nú en fyrir viku síðan.

Aukin áhættufælni nú gæti verið tilkomin vegna áframhaldandi óróa í Evrópu í tengslum við Grikkland og vangaveltna um hvort sá björgunarpakki sem ESB og AGS hafa útbúið muni duga til að koma í veg fyrir að Grikklandskrísan breytist í bráðsmitandi faraldur í Evrópu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×