Viðskipti innlent

Ástralar vilja leita að gulli austur á fjörðum

Ástralskt fyrirtæki, Platina Resources, hefur sótt um rannsóknarleyfi til Orkustofnunnar til að leita að gulli og öðrum málmum á Austurlandi. Lárus Ólafsson lögmaður Orkustofnunar segir að Platina Resources hafi haft samband við stofnunina fyrir ári síðan. Samskiptin hafa nú leitt til umsóknar Ástralana.

Lárus Ólafsson segir að ástralska fyrirtækið sé með gullvinnslu í gangi á Grænlandi og sökum hennar hafi þeir haft mikil samskipti við Íslendinga, sótt hingað vörur og ýmsa þjónustu.

„Þeir hafa í framhaldi af þessum samskiptum leitað til okkar með ýmsar upplýsingar í kringum möguleikana á gullvinnslu á Íslandi eins og til dæmis lagalegt umhverfi og fleira," segir Lárus. „Þetta virðist vera áhugavert dæmi."

Aðspurður hvort eitthvað af gulli hafi funist austur á fjörðum segir Lárus að fyrirtækið Ísor hafi leitað að slíku. „Ég veit að Ástralirnir hafa verið í sambandi við starfsmenn Ísor," segir Lárus.

Alls hafa 1260 landeigendur á svæðinu frá Vopnafirði suður að Breiðdalsvík fengið bréf frá Orkustofnun, þar sem þeir eru beðnir um álit sitt á umsókninni.

Áhugi Platina Resources beinist einkum svæðum nálægt Vopnafirði, Breiðavík og Breiðdal.

Lárus nefnir að raunar sé eitt rannsóknarleyfi fyrir gulleit í gildi á Íslandi. Það var veitt Melmi ehf. árið 2004 og nær yfir gulleit á vestanverðu landinu og Vestfjörðum.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×