Viðskipti innlent

Eigið fé Íbúðalánasjóðs rýrnar áfram að mati S&P

Matsfyrirtækið Standard & Poors (S&P) reiknar með því að eigið fé Íbúðalánasjóðs muni rýrna enn frekar á þessu ári og næsta. Þetta liggur meðal annars til grundvallar ákvörðun S&P að lækka lánshæfiseinkunn sjóðsins niður í ruslflokk.

Í áliti S&P sem barst Íbúðalánasjóði í gær segir m.a. að sjóðurinn hafi skilað miklu tapi í fyrra og árið 2008 eða samtals 10,1 milljarði kr. S&P telur að tekjur og gæði eigna sjóðsins verði áfram undir þrýstingi á þessu ári. Bent er á að 16% af lánasafni sjóðsins var annaðhvort í vanskilum eða í frystingu undir árslok 2009.

S&P segir að sökum þess hve hátt hlutfall af lánasafni Íbúðalánasjóðs sé í vanskilum eða frystingu muni sjóðurinn vart ná því að skila hagnaði í ár. Sjóðurinn gæti lenti í lausafjárskorti í ár og á næsta ári. S&P telur hinsvegar að sjóðurinn gæti brugðist við þessum vanda með því að taka meiri lán.

Fjallað er um kaup lífeyrissjóðanna á Lúxemborgarbréfunum af Seðlabankanum. S&P segir að þau kaup, upp á 90 milljarða kr. hafi gert það að verkum að lífeyrissjóðirnir haldi nú á tveimur þriðju af skuldum Íbúðalánasjóðs. Á sama tíma er erlent eignarhald á skuldunum komið undir 10%. S&P telur að áhugi erlendra fjárfesta á kaupum á bréfum sjóðsins muni fara minnkandi í náinni framtíð.

S&P segir að fari svo að skuldabréfaútgáfa Íbúðalánasjóðs dugi ekki til að fjármagna lánsþörf sjóðsins reikni matsfyrirtækið með að stjórnvöld muni leggja sjóðnum til fjármagn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×