Viðskipti innlent

Nýjum bílum fjölgar mest hér og á Írlandi

Í nóvember í fyrra voru nýskráðir 63 bílar hér á landi. Í nóvember síðastliðnum var nýskráning nærri þrisvar sinnum meiri, eða 184 bílar. Aukningin nemur 192 prósentum. Fréttablaðið/Vilhelm
Í nóvember í fyrra voru nýskráðir 63 bílar hér á landi. Í nóvember síðastliðnum var nýskráning nærri þrisvar sinnum meiri, eða 184 bílar. Aukningin nemur 192 prósentum. Fréttablaðið/Vilhelm

Hlutfallsaukning nýrra bíla hér á landi á þessu ári er með því mesta sem gerist meðal landa á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og hátt yfir meðaltali sem hljóðar upp á 5,1 prósents samdrátt milli ára. Þetta má lesa út úr nýjustu tölum ACEA, samtaka evrópskra bílaframleiðenda.

Nýskráðum bílum hefur mest fjölgað á Írlandi, eða um 54 prósent fyrstu ellefu mánuði þessa árs. Hér á landi nemur fjölgunin 50 prósentum. Danir eru svo í þriðja sæti með tæplega 40 prósenta aukningu.

Sé einungis horft til nýskráningar bíla í nóvember er sveiflan milli ára þó enn meira sláandi. Þá er um þreföldun að ræða bæði á Írlandi og Íslandi. Nýskráning bíla á Írlandi í nóvember í ár var 194,6 prósentum meiri en á sama tíma í fyrra. Hér nam aukning í nóvembermánuði árin 2009 og 2010 192 prósentum, fór úr 63 bílum í 184.

„Við hjá Öskju teljum að bílasala á Íslandi hafi náð botninum fyrir allnokkru. Undanfarnar vikur og mánuði hefur verið talsverð aukning hjá okkur, bæði í fjölda tilboða til viðskiptavina, heimsóknum í sýningarsali og ekki síst í sölutölum,“ segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju. Hann telur þó einsýnt að næsta ár verði langt undir því sem nauðsynlegt sé til að halda heilbrigðri endurnýjun í bílaflota landsmanna.

„En ég er sannfærður um að árið verður mun betra en 2010.“

Þá staðreynd að söluaukning nýrra bíla er einna mest hér í samanburði við aðra markaði Evrópu rekur Jón Trausti til þess að samdrátturinn hafi orðið svo miklu meiri hér en annars staðar.

Þegar horft er til Evrópusambandslandanna allra kemur í ljós að nýskráningum fækkar fyrstu ellefu mánuði ársins um 5,7 prósent og um 5,1 prósent ef horft er til allra landa EES.

Í tilkynningu ACEA kemur fram að allir helstu markaðir Evrópu hafi dregist saman. Þannig hafi samdráttur í skráningu nýrra bíla í nóvember numið 6,2 prósentum í Þýskalandi, 10,8 prósentum í Frakklandi, 11,5 prósentum í Bretlandi, 21,1 prósenti á Ítalíu og 25,5 prósentum á Spáni.

Sé hins vegar horft til sölu frá janúar til nóvemberloka eykst sala á Spáni um 5,9 prósent, en samdráttur er mestur á Ítalíu, 8,2 prósent og í Þýskalandi, 25,2 prósent.olikr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×