Viðskipti innlent

NSA kaupir rúmlega 30% hlut í Transmit

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins (NSA) hefur undirritað samning um kaup á 30,6% hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu Transmit ehf. Markmið eigenda félagsins er að Transmit verði leiðandi á sviði hugbúnaðar fyrir umsýslu rafræns markaðsefnis fyrirtækja.

Í tilkynningu segir að vara Transmit sé Brand Regard sem gerir litlum og meðalstórum fyrirtækjum kleift að tryggja að allir starfsmenn og samstarfsaðilar fyrirtækja hafi auðveldan aðgang að stafrænum markaðsgögnum, svo sem lógóum, bæklingum og myndum.

"Við erum mjög ánægð með fjárfestinguna í Transmit. Við höfum mikla trú á fyrirtækinu og teyminu á bak við Brand Regard. Fyrir okkur sem fjárfesta er jafnframt mikill kostur að Transmit hefur þegar hafið sölustarf erlendis og náð erlendum viðskiptavinum sem staðfestir vaxtamöguleika fyrirtækisins," segir Helga Valfells, framkvæmdarstjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.

„Með útflutningi á íslensku hugviti hyggst Transmit grípa nýtilkomið, viðamikið tækifæri sem hefur myndast á alþjóðamarkaði. Fjárfesting Nýsköpunarsjóðs í fyrirtækinu mun gera okkur kleift að hafa hraðar hendur í sókn sinni inn á þennan markað. Við hlökkum til samstarfsins við Nýsköpunarsjóð en aðkoma hans að fyrirtækinu er mikil viðurkenning fyrir okkur á þeim árangri sem þegar hefur náðst," segir Geir Freysson, framkvæmdastjóri Transmit.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×