Viðskipti innlent

Eru hætt í stjórn en bera áfram ábyrgð

Eitthvað er um að stjórnarmenn reyni að komast úr stjórnum illa staddra félaga áður en þau fara í þrot.Fréttablaðið/Anton
Eitthvað er um að stjórnarmenn reyni að komast úr stjórnum illa staddra félaga áður en þau fara í þrot.Fréttablaðið/Anton

Ríflega 400 íslensk fyrirtæki eru án skráðra stjórnar-manna, samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo. Þetta þýðir að fyrrverandi stjórnarmenn, sem hafa sagt sig úr stjórnum félaganna, bera í raun ábyrgð á þeim þrátt fyrir að telja sig lausa allra mála með úrsögn sinni.

Ef enginn á sæti í stjórn fyrirtækis fellur ábyrgð á fyrirtækinu, lögum samkvæmt, á þá sem áður voru í stjórninni. Því þarf maður sem segir sig úr stjórn félags að gæta að því að stjórn sé enn starfandi í félaginu. Ef aðeins einn stjórnar-maður er í félagi þarf hann að sjá til þess að einhver taki við af honum, slíta félaginu eða setja það í þrot.

„Menn geta ekki hlaupið frá þessu, lögin ganga út frá því að það sé alltaf stjórn í félögum,“ segir Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður. „Ef félag verður stjórnlaust á Hlutafélagaskrá að grípa inn í, aðvara, veita frest og afskrá svo félagið.“

Samkvæmt lögum um einkahlutafélög á Hlutafélagaskrá að grípa inn í séu engir skráðir í stjórn félags. Hlutafélagaskrá á fyrst að aðvara þá sem ætla má að séu í forsvari eða fyrrverandi stjórnarmenn um að til standi að afskrá félagið. Bregðist þeir ekki við innan tilskilins tímafrests ber að afskrá félagið.

Í samantekt Creditinfo kemur fram að ljóst sé að talsverður fjöldi fólks geri sér ekki grein fyrir því að það beri ábyrgð á fyrirtæki þrátt fyrir að það telji sig vera hætt í stjórn. Eftir úrsögn verði að fylgja henni eftir með því að ganga úr skugga um að nýr stjórnarmaður sé skipaður.

Til viðbótar við þau rúmlega 400 félög sem ekki eru með neina skráða stjórnarmenn eru 150 til 200 fyrirtæki bara með varamenn skráða í stjórn.

Algengt er að stjórnarmenn hætti í stjórnum fyrirtækja sem eru á leið í þrot svo nafn þeirra komi ekki fram í rekstrarsögu fyrirtækisins. Lára segir alltaf eitthvað um það að fólk segist í raun hafa verið blekkt til að setjast í stjórn fyrirtækja skömmu fyrir óumflýjanlegt gjaldþrot, til dæmis starfsmenn félagsins.

brjann@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×