Viðskipti innlent

Meðal Íslendingur á 2,3 milljónir inn á bankareikningi

Innlán íslenskra heimila í bönkunum nema nú 734 milljörðum króna. Þetta samsvarar því að hver Íslendingur eigi að jafnaði 2,3 milljónir króna inn á bankareikningi.

Fjallað er um innlán í bankakerfinu í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að heildarinnlán í bankakerfinu, ásamt seðlum og mynt í umferð, námu í lok mars 1.582 milljörðum Til samanburðar var peningamagn á þennan kvarða mælt 1.622 milljarða kr. í lok ársins 2008 og hafði þá vaxið um nærri 400 milljarða kr. það ár.

Ef litið er til skiptingar innlána eftir eigendum þeirra kemur upp úr kafinu að íslensk heimili voru stærstu eigendur innlána í lok mars, en þau áttu þá ríflega 734 milljarða kr. í innlánum hjá bönkunum. Innlán heimilanna jukust um nærri 104 milljarða kr. strax eftir bankahrunið, en heldur hefur dregið úr þeim síðan.

Heimilin, ásamt lífeyrissjóðunum, eiga því einna drýgstan þátt í þeirri aukningu innlána sem varð á árinu 2008. Lífeyrissjóðirnir hafa frá hruni margir hverjir haft eins mikið af eignum sínum í innlánum og lög leyfa, en sjóðirnir mega halda allt að 10% eigna sinna í sjóði og innstæðum. Í marslok áttu sjóðirnir tæpa 148 milljarða kr. í innlánum í bönkunum, en til samanburðar var hrein eign þeirra til greiðslu lífeyris 1.830 milljarðar kr. á sama tíma.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×