Viðskipti innlent

Skýrslan unnin út frá hagsmunum fjármagnseigenda

Sigríður Mogensen skrifar
Formenn ríkisstjórnarflokkanna funda með oddvitum stjórnarandstöðunnar. Mynd/ Vilhelm.
Formenn ríkisstjórnarflokkanna funda með oddvitum stjórnarandstöðunnar. Mynd/ Vilhelm.
Útreikningarnir eru unnir af fjármagnseigendum og út frá hagsmunum þeirra og eru tölurnar um kostnað því vart marktækar, segir formaður Framsóknarflokksins. Þingmaður Hreyfingarinnar segir vel svigrúm fyrir almenna leiðréttingu á lánum en forsætisráðherra segir líklegt að fara þurfi samsetta leið.

Fram kemur í skýrslu sérfræðingahóps ríkisstjórnarinnar um skuldavanda heimilanna að flestar leiðir sem lagt var mat á kosti 100 milljarða eða meira.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins segir ekki tekið tillit efnahagslegra áhrifa, né þess að bankarnir hafi þegar afskrifað stóran hluta lánanna.

„Þessir útreikningar eru unnir að langmestu leyti af fjármagnseigendum og út frá hagsmunum þeirra," segir Sigmundur. Heilmikið vanti inn í útreikningana. „Fyrir vikið eru tölurnar vart marktækar." Þannig að þetta er ekki tæmandi að þínu mati? „Nei og í rauninni eins og ég benti á á fundinum (fundi stjórnar- og stjórnarandstöðu í gær, innskot blaðamanns) þá er verra en ekki að setja tölurnar fram með þessum hætti, þar sem menn reikna ekki inn í grundvallaratriði eins og það að það er búið að afskrifa heilmikið - gera bara ráð fyrir því að það innheimtist allt ef menn gera ekki neitt."

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, segir gert ráð fyrir of miklum kostnaði í skýrslunni, því hluti af lánunum mun aldrei innheimtast.

„Eftir að hafa skoðað þetta mjög nákvæmlega er það ennþá skoðun okkar að það sé vel svigrúm fyrir almenna leiðréttingu á þessum lánum sem þarf."

Boðað hefur verið til fundar með hagsmunaaðilum í Þjóðmenningarhúsinu klukkan tvö í dag. Forsætisráðherra segir að skýrslan sýni að vandamálið sé víðtækt. "Nú þurfum við að skoða hvaða leið við förum, þetta eru 8-9 leiðir, mismunandi dýrar, hafa mismunandi áhrif og gagnast misjafnlega eftir því um hvaða hóp er að ræða - þannig að það getur vel verið að við þurfum að fara samsettar leiðir," segir Jóhanna Sigurðardóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×