Lífið

Guðný bloggar um danstónlist

Guðný Svava Gestsdóttir heldur úti bloggi þar sem hún fjallar um danstónlist. 
Fréttablaðið/Anton
Guðný Svava Gestsdóttir heldur úti bloggi þar sem hún fjallar um danstónlist. Fréttablaðið/Anton
Guðný Svava Gestsdóttir heldur úti tónlistarbloggi undir nafninu Missy Melody og hefur skrifað undir því nafni í rúmt ár. Á blogginu fjallar Guðný Svava um flestar stefnur innan danstónlistar og segir hún slíkt blogg lengi hafa vantað hér á landi.

„Mér fannst vanta blogg þar sem fjallað væri um þessa tegund af tónlist. Ég hlusta á Beatport allan daginn í vinnunni og það getur verið erfitt að finna góða hluti því það er svo mikið framboð af danstónlist í dag. Ég vel bara þau lög sem mér finnst góð og set það inn á bloggið mitt, ég er í raun ekki að gagnrýna tónlist því ég fjalla einfaldlega ekki um tónlist sem mér þykir leiðinleg." Guðný Svava hefur starfað sem plötusnúður frá árinu 1994 en segist þó lítið hafa sinnt spilamennskunni undanfarin ár þar sem hún sé orðin móðir og segir það ekki fara sérstaklega vel við lífsstíl plötusnúðs.

Að eigin sögn byrjaði hún upphaflega að blogga til að geta sjálf haldið betur utan um alla þá tónlist sem hún fann á netinu. „Ég hef verið að gera árslista fyrir ýmsa útvarpsþætti í mörg ár og fannst þetta kjörin leið til að halda utan um alla tónlistina sem ég hlustaði á yfir árið. Svo vatt þetta bara upp á sig."

Guðný Svava skrifar allar færslurnar á ensku en segir það ekki vefjast fyrir sér. „Ég skrifaði fyrst á íslensku en fékk svo mikið af bréfum frá fólki sem var að biðja mig um að þýða færslurnar fyrir sig yfir á ensku og þá ákvað ég bara að svissa yfir. Ég held að það séu um hundrað og fimmtíu manns sem heimsækja síðuna daglega núna sem er ánægjulegt."

Þeim sem vilja fylgjast með skrifum Guðnýjar Svövu er bent á vefsíðurnar missymelody.blogcentral.is og rvkunderground.com/missy-melody. -sm








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.