Innlent

Bráðsmitandi veiruskita herjar á kýr

Sýkingar hefur orðið vart á Norðurlandi og Austurlandi. Sjaldgæft er að kýr drepist vegna sjúkdómsins.
Sýkingar hefur orðið vart á Norðurlandi og Austurlandi. Sjaldgæft er að kýr drepist vegna sjúkdómsins.
Veiruskita í kúm hefur komið upp á nokkrum bæjum á Austurlandi og Norðurlandi á síðustu vikum.

Veiruskita er mjög smitandi en ekki er vitað með vissu um hvaða veiru er að ræða. Þegar hún berst í fjós smitast flestar kýr sem ekki hafa smitast áður. Sjaldgæft er að kýr drepist vegna sjúkdómsins en afleiðingar hans geta verið alvarlegar og langvarandi þar sem sjúkdómurinn veikir ónæmiskerfi kúnna þannig að þær verða viðkvæmari fyrir öðrum sjúkdómum, meðal annars júgurbólgu og öðrum bakteríusýkingum. Kýr sem veikjast falla verulega í nyt á meðan þær eru veikar og komast sjaldan í fulla nyt aftur á yfirstandandi mjaltaskeiði. Sjúkdómurinn hefur einnig neikvæð áhrif á frjósemi þeirra. Auður Lilja Arnþórsdóttir, sóttvarnadýralæknir hjá Matvælastofnun, segir mjólk úr sýktum kúm neysluhæfa og pestin smitist ekki í fólk.

Einkenni veiruskitu svipar til einkenna sjúkdóms sem er vel þekktur erlendis og kallast „winter dysenteri“. Sá sjúkdómur smitast með saur og slími frá nösum. Smit berst mjög auðveldlega með fólki, dýrum og ýmsum hlutum, Oftast smitast allir næmir gripir á búinu á nokkrum dögum og sjúkdómurinn gengur yfir á einni til tveimur vikum.- jss



Fleiri fréttir

Sjá meira


×